Þú stóðst á tindi Heklu hám
og horfðir yfir landið fríða,
þar sem um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám;
en Loki bundinn beið í gjótum
bjargstuddum undir jökulrótum –
þótti þér ekki Ísland þá
yfirbragðsmikið til að sjá?
Þú reiðst um fagran fjalladal
á fáki vökrum götu slétta,
þar sem við búann brattra kletta
æðandi fossar eiga tal,
þar sem að una hátt í hlíðum
hjarðir á beit með lagði síðum –
þótti þér ekki Ísland þá
íbúum sínum skemmtan ljá?
(Til herra Páls Gaimard,
Samið árið 1839.
http://www.jonashallgrimsson.is/page/ljod_til_herra_pals_gaimard)