Sunnudaginn 2. nóvember lögðum við nokkur af stað á fjórum bílum frá Rauðavatni áleiðis í Jökulgil, innaf Landmannalaugum. Við áðum við Vegamót við Landveg og héldum svo áfram um Áfangagil til Landmannalauga. Á þeirri leið ókum við á býsna góðum vegi, komum við í nýuppgerðum gangnamannakofa við Áfangagil, héldum áfram í Sölvahrauni, framhjá Hrútagili, með Valafelli og Dyngjum, ókum sunnan Litla-Melfells að Eskihlíðarhnausum og síðan áfram til Landmannalauga. Þaðan héldum við í Jökulgil innaf Landmannalaugum og þveruðum Jökulgilskvísl 80 sinnum (!) á leið okkar innúr. Í Jökulgili ókum við í Litla- og Stóra-Hamragil auk Kaldaklofs. Að þessu loknu héldum við sömu leið til baka og ókum uppúr Dómadal inná leiðina til Krakatinds. Ætlunin var að fara í Hungurfit og þaðan niður Fljótshlíð. Við snérum við við Sléttafell, sunnan Krakatinds, og héldum sömu leið til baka inná Dómadalsleiðina og Landveg. Þaðan í bæinn. Ástæður þess að við snérum við voru nokkrar: þungt færi í dæmigerðum haustsnjó, djúpar skarir við læki (virkuðu eins og skrúfstykki), eldssneytisskortur Bolla og Rikka og yfirvofandi myrkur. Við bara nenntum þessu ekki. Auk þess eru takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða 5 ára gutta þótt duglegur sé! Semsagt, við spændum til baka, Bolli snýkti eldsneyti á Leirubakka þótt lokað væri, og Rikki komst að Vegamótum. Úti er ævintýri! Myndir tóku Bolli, Jón Sverrir og Rikki.
A trip to Landmannalaugar and to the alley Jökulgil. From Jökulgil we drove back to Landmannalaugar and took the road to Krakatindur and then back to Reykjavik.