Jöklasel - Hveragil - Grímsfjall - Jökulheimar - Maí 2003
Fimmtudaginn 15. maí 2003 lögðum við Hrafnhildur ásamt Jóni Sverri og Þóru, Skúla og Bessa og Jóni og Sibbu af stað austur í Jöklasel við rætur Skálafellsjökuls, þar sem Bjarni staðarhaldari tók vel á móti okkur. Morguninn eftir héldum við á jökul í glampandi sól og með stórkostlegu útsýni allt til Portúgals. Færið upp Skálafellsjökul var allgott. Á Breiðubungu hittum við þrjá göngugarpa sem sátu í makindum við tjöld sín og drukku kaffi og hlustuðu á fréttir. Eftir stutt spjall héldum við af stað aftur með stefnu á Hveragil. Færið varð æ betra og hraði um 80 km á klst. Í Hveragili böðuðum við okkur í steikjandi sól og hita. Færið uppá Kverkfjallahrygg var mjög þungt og dugðu einungis rólegheit og þolinmæði. Í fyrsta gír og hægagangi miðaði okkur þó jafnt og þétt. Við vorum á Grímsfjalli um kl. 18 og elduðum þar stórgóða kjötsúpu. Morguninn eftir fórum við að Þumli, kíktum á Grænalón og héldum til baka til Grímsfjalls. Færið var stórkostlegt og hraði eins og á malbikuðum þjóðvegum landsins. Á Grímsfjalli hittum við fyrir á þriðja tug manna og var ákveðið að halda til byggða. Við grilluðum í Jökulheimum eftir 57 mín. akstur frá Grímsfjalli og héldum að því loknu heim til höfuðborgarinnar. Þetta var stórkostleg ferð með góðum ferðafélögum! Það hefði sett punktinn yfir i-ið ef Sigurlaug og Inger, Svenni og Svanhildur og María og Halldór hefðu verið með líka - en það verður ekki alltaf við öllu séð. Myndirnar tóku Jón Sverrir og Þóra nema þær sem merktar eru öðrum.